Enski boltinn

Guardiola veit ekki hvort Ederson geti spilað með Man. City á móti Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ederson er að glíma við meiðsli.
Ederson er að glíma við meiðsli. Getty/Visionhaus
Englandsmeistarar Manchester City verða hugsanlega án aðalmarkvarðar síns þegar heimsækja Liverpool á Anfield um helgina í uppgjöri tveggja efstu liða ensku úrvalsdeildarinnar.

Ederson byrjaði leik Manchester City og Atalanta í Meistaradeildinni í gærkvöldi en varð að fara útaf í hálfleik.

„Hann er glíma við meiðsli í vöðva. Það var áhætta að láta hann spila áfram þannig að við tókum hann af velli í hálfleik,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, eftir leikinn.





Pep Guardiola var spurður út í það hvort Ederson gæti spilað leikinn á móti Liverpool. „Ég veit það ekki,“ svaraði spænski stjórinn.

„Claudio Bravo er ótrúlegur og mjög reyndur fagmaður. Ef Ederson er klár þá spilar hann. Ef svo er ekki þá spilar Claudio. Við treystum honum. Af hverju ætti ég að efast um leikmennina mína?,“ sagði Pep Guardiola.

Claudio Bravo kom inn á fyrir Ederson í hálfleik en Bravo fékk svo að líta rauða spjaldið í seinni hálfleiknum. Það var því bakvörðurinn Kyle Walker sem kláraði leikinn í marki Manchester City og hann hélt markinu hreinu.





Ederson er búinn að vera í byrjunarliði Manchester City í öllum deildarleikjum og öllum Evrópuleikjum á þessu tímabili. Liðið hefur orðið Englandsmeistari bæði tímabilið eftir að brasilíski markvörðurinn kom til liðsins og Ederson hefur þegar unnið fimm titla með félaginu.

Manchester City getur minnkað forystu Liverpool í þrjú stig með sigri á Anfield á sunnudaginn kemur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×