Körfubolti

Daði Berg fékk þriggja leikja bann og Mantas einn leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daði Berg er á leið í þriggja leikja bann.
Daði Berg er á leið í þriggja leikja bann. vísir/daníel
Daði Berg Grétarsson, leikmaður ÍR í Domino's deild karla í körfubolta, hefur verið úrskurðaður í þriggja leikja bann vegna háttsemi sinnar í leik gegn Þór á Akureyri í þarsíðustu umferð. Mantas Virbalas, leikmaður Þórs, var úrskurðaður í eins leiks bann.

Daði  hrinti Mantas eftir að villa var dæmd á hann og sparkaði boltanum tvisvar í hann. Þeir voru báðir reknir út úr húsi. Atvikið má sjá hér fyrir neðan.



Í niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar segir að Daði hafi sýnt af sér hegðun „sem á ekkert skylt við íþróttalega framkomu“. Nefndin mat spörk Daða í boltann sem tilraun til líkamsmeiðingar.

„Hinn kærði ýtti andstæðing sínum í gólfið að ósekju og sparkaði síðan boltanum af stuttu færi af alefli í hann. Mátti hinn kærði gera sér grein fyrir að þessi tvö föstu spörk í boltann hefðu getað valdið andstæðing hans skaða, sem nefndin metur sem tilraun til líkamsmeiðingar,“ segir í úrskurðinum.

Dómarar leiksins mátu það sem svo að Mantas hefði kýlt Daða og það kemur einnig fram í frekari útskýringum þeirra. Aga- og úrskurðarnefndin er bundin af ákvörðunum dómaranna eins og fram kemur í úrskurði hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×