Íslenski boltinn

Heimir Guðjónsson í viðtali hjá Gaupa í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Guðjónsson er mættur á ný í íslenska fótboltann.
Heimir Guðjónsson er mættur á ný í íslenska fótboltann. Skjámynd/S2 Sport
Heimir Guðjónsson, nýr þjálfari Vals í Pepsi Max deild karla í fótbolta, er mættur til starfa á Hlíðarenda þar sem krafan er einföld. Titlar og aftur titlar. Fjallað verður um heimkomu Heimis í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld en ítarleg útgáfa verður í framhaldinu aðgengileg á Vísi.

Guðjón Guðmundsson hitti Heimi í dag og fór yfir komandi tímabil sem verður það fyrsta hjá Heimi með Valsliðið og það fyrsta á Íslandi síðan að hann þjálfaði FH sumarið 2017.

Heimir ræðir komandi tímabil með Valsliðið sem olli svo miklum vonbrigðum í sumar og þá fer hann einnig yfir ástæðurnar fyrir því að hann er kominn aftur í Pepsi Max deildina.

Heimir Guðjónsson gerði FH-liðið fimm sinnum að Íslandsmeisturum á árunum 2008 til 2016 og liðið endaði aðeins einu sinni neðar en í öðru sæti og það var lokaárið þegar FH varð í 3. sætinu.

Heimir hefur þjálfað HB í Þórshöfn í Færeyjum undanfarin tvö sumur en snýr nú aftur í íslenska boltann og tekur við Valsliðinu af Ólafi Jóhannessyni. Heimir tók einmitt einnig við FH liðinu af Ólafi á sínum tíma.

Hér fyrir neðan má sjá myndbrot af því þegar Guðjón Guðmundsson hitti Heimi og aðstoðarmenn hans á Hlíðarenda í dag.



Klippa: Gaupi hitti Heimi Guðjónsson á Hlíðarenda



Fleiri fréttir

Sjá meira


×