Erlent

Ein frægasta and­spyrnu­hetja Frakka látin

Atli Ísleifsson skrifar
Yvette Lundy.
Yvette Lundy. Wikipedia commons
Ein helsta andspyrnuhetja Frakklands, Yvette Lundy, er látin, 103 ára að aldri. Franskir fjölmiðlar segja hafa hafa andast í bænum Epernay í norðurhluta Frakklands í gær.

Í frétt BBC segir að Lundy hafi á sínum tíma útvegað fjölskyldum gyðinga, mönnum sem voru að reyna að komast hjá nauðungarvinnu og föngum sem hafði tekist að flýja falska pappíra á tímum hersetu nasista í Frakklandi.

Hún byrjaði að útvega fólki falska pappíra árið 1940 og var svo handtekin 1944, þá 28 ára gömul, og færð í útrýmingarbúðir nasista í Ravensbruck. Hún var síðar flutt í Buchenwald-búðirnar þar sem hún var fangi fram á vordaga 1945.

Hún tjáði sig lítið um reynslu sína næstu fimmtán árin eftir lok seinna stríðs, en árið 1959 byrjaði hún að ræða við franska og þýska nemendur þar sem hún talaði fyrir nauðsyn sátta.

Árið 2017 hlaut Lundy æðstu orðu sem óbreyttir franskir borgarar geta fengið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×