Enski boltinn

Segja að Liverpool sé nú að íhuga að fara Löwen-leiðina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Liverpool í vítaspyrnukeppninni á móti Arsenal sem Liverpool vann og tryggði sér sæti í átta liða úrslitum enska deildabikarsins.
Leikmenn Liverpool í vítaspyrnukeppninni á móti Arsenal sem Liverpool vann og tryggði sér sæti í átta liða úrslitum enska deildabikarsins. Getty/ Laurence Griffiths
Eftir að Liverpool hótaði því að neita að spila leik í átta liða úrslitum enska deildabikarsins eru menn að reyna að finna lausnir á leikjaöngþveiti Liverpool liðsins í jólamánuðinum.

Liverpool er nú sagt vera að skoða þann möguleika að spila tvo leiki sama daginn í desember með því að stilla upp tveimur mismunandi liðum.

Liverpool gerði leikjadagskránni sinni svolítinn óleik með því að komast áfram í átta liða úrslit deildabikarsins á miðvikudagskvöldið en það þýðir að liðið þarf nú að spila bikarleik í sömu viku og liðið á að spila í Katar í heimsmeistarakeppni félagsliða.

Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp talaði strax eftir leikinn um möguleikann á því neita að spila leikinn en nú herma heimildir Daily Mirror að Liverpool sé líka að íhuga það að tefla fram tveimur mismunandi liðum í þessum tveimur keppnum.





Það er allavega fullljóst að Liverpool er að setja mikla pressu á yfirmenn deildabikarsins að létta á leikjaálagi liðsins í desember.

Það er ekki kannski ekki mjög miklar líkur á því að Liverpool spili tvo leiki 18. desember en sá möguleiki er í það minnsta í umræðunni.

Liverpool færi þá sömu leið og þýska handboltaliðið og Íslendingaliðið Rhein Neckar Löwen gerði um árið þegar liðið lenti í því að deildarleikur og leikur í Meistaradeildinni rákust á.

Þá voru það sjónvarpssamningar sem hindruðu tilfærslur og nú er það óhemju þétt leikjadagskrá Liverpool í desember sem gerir félaginu erfitt fyrir. Leikmenn Löwen voru mjög ósáttir og varaliðið skíttapaði líka sínum leik.

Það má búast við því að aðallið Liverpool verði það sem fari til Katar til þess að reyna tryggja Liverpool sigur í heimsmeistarakeppni félagsliða í fyrsta sinn.





Liverpool drógst á móti Aston Villa í átta liða úrslitum enska deildabikarsins og sá leikur á að fara fram 17. eða 18. desember. Undanúrslitaleikur Liverpool í heimsmeistarakeppni félagsliða fer fram í Katar 18. desember.

Líklegast er þó að deildabikarleikurinn á Villa Park verði færður til 8. janúar en þá var fyrirhugað að spila fyrri undanúrslitaleikinn í keppninni.

Liverpool tefldi fram mjög ungu liði í sigrinum á Arsenal og Jürgen Klopp gerði ellefu breytingar á byrjunarliðinu frá því í deildarleiknum á móti Tottenham helgina á undan.

Liverpool þarf að fara með 23 manna leikmannahóp til Katar, þar á meðal þrjá markverði og því verða margir sem spiluðu leikinn á móti Arsenal að fara með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×