Katrín var til viðtals í hádegisfréttum Bylgjunnar um ásakanir á hendur Samherja um himinháar mútugreiðslur til háttsettra embættismanna í Namibíu til að tryggja sér kvóta þar í landi.
„Ég vil nú fyrst segja það að mér var mjög brugðið að sjá þau gögn sem þarna var fjallað um í Kveik í gær,“ segir Katrín.

Hún bendir á að málið sé á borði héraðssaksóknara og sömuleiðis hafi skattrannsóknarstjóri gögn tengd málinu á boði sínu.
„Það liggur líka fyrir að íslensk stjórnvöld munu eiga samráð við stjórnvöld í öðrum löndum um framgang málsins - þau lönd sem komu við sögu.“
Nú liggi boltinn hjá viðeigandi yfirvöldum. Mikilvægt sé að réttarkerfið fari yfir málið með réttum hætti.

Ísland veitti árum saman háum fjármunum til þróunarstarfa í Namibíu og vakti athygli. Tengsl Íslands við Namibíu er ekki svo fallegt á að líta eftir birtingu gagnanna í gær. Þá er vert að hafa í huga að Ísland lenti nýverið á lista þeirra þjóða sem ekki teljast hafa brugðist við aðgerðum gegn peningaþvætti, gráum lista þjóða sem hafi ekki upp tilskyldar varnir.
„Það er auðvitað hætta á því að þetta mál, sé það svona vaxið, muni skaða orðspor Íslands sem er sérstakt áhyggjuefni. Ekki bara fyrir íslensk stjórnvöld heldur líka íslenskt atvinnulíf. En ég vil líka minn á það að þarna er um íslenskt fyrirtæki að ræða en ekki íslenskt samfélag í heild sinni.“
Samfélagsleg ábyrgð stórra fyrirtækja á borð við Samherja sé auðvitað töluverð.
„Þess vegna segi ég að ef málavextir reynast þeir sem líst var í þættinum í gær þá er þetta mál Samherja til skammar. Ég vil líka segja það að það er sérlega dapurlegt að einmitt land þar sem Íslendingar höfðu verið að verja fjármunum til þróunarsamvinnu að þetta sé svo niðurstaðan af því.“