Dagur fór í aðgerð á hné um miðjan mánuðinn. Eftir tvo daga heima fór hann aftur á spítalann vegna mikilla verkja. Þá kom í ljós að hann var kominn með sýkingu í liðinn.
„Aðgerðin gekk vel en eftir tvo daga fór ég upp á spítala með óbærilegan verk. Þeir sáu þá að ég var kominn með sýkingu og ég fékk sýklalyf,“ sagði Dagur í samtali við Vísi.
Að hans sögn var aðgerðin einföld og aukaverkanirnar fátíðar.
„Þetta er ótrúlega sjaldgæft. Læknarnir sögðu að þetta kæmi ekki upp nema í svona 1% tilvika. Þetta er fáránlega mikil óheppni,“ bætti Dagur við.
Garðbæingurinn hefur nú verið rúmliggjandi á spítala í viku. Búist var við að hann yrði frá í um sex vikur eftir aðgerðina en eftir þetta bakslag er óvíst hvenær hann snýr aftur á parketið.
„Ég veit ekki hvenær ég verð klár aftur. Það er mjög erfitt að segja. Þetta er svekkjandi en ég er allavega í réttum höndum,“ sagði Dagur sem gekk í raðir Grindavíkur frá austurríska liðinu Flyers Wels í sumar.
Í sjö leikjum í Domino's deildinni í vetur er Dagur með 12,4 stig, 3,0 fráköst og 6,0 stoðsendingar að meðaltali. Hann er sjöundi stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar.