Innlent

Ósanngjörn og móðgandi ummæli leyfileg

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Jón Steinar Gunnlaugsson, lögfræðingur.
Jón Steinar Gunnlaugsson, lögfræðingur.
Réttur til að tjá ósanngjörn, móðgandi og stuðandi ummæli nýtur verndar stjórnarskrárákvæðis um tjáningarfrelsi. Þetta er niðurstaða Landsréttar sem sýknaði Jón Steinar Gunnlaugsson í gær af dómkröfum Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara.

Benedikt stefndi Jóni Steinari fyrir ummæli sem Jón Steinar lýsti í bók sinni „Með lognið í fangið – um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“. Í kaflanum „Hugarástand við Hæstarétt“ vísar Jón Steinar til dóms yfir Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, í undirkafla með heitinu dómsmorð. Fjallar hann þar um meðferð málsins sem hann telur ekki hafa staðist kröfur um sakfellingar í refsimálum og nafngreinir þá dómara sem dæmdu málið.

Í forsendum Landsréttar segir að þótt meginefni bókarinnar sé hvöss og óvægin gagnrýni á störf réttarins, felist alvarlegar ásakanir í garð dómaranna í tilvitnuðu máli þótt þau séu virt ein og sér. Landsréttur kemst engu að síður að þeirri niðurstöðu að með staðhæfingum Jóns Steinars um störf dómaranna í umræddu máli hafi hann í raun og veru verið að „fella gildisdóm með því að lýsa eigin skoðunum og ályktunum sem hann hefur dregið af því sem hann telur að hafi legið fyrir í málinu“. Jón Steinar var því sýknaður af kröfum Benedikts.

Var hvor um sig látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir Landsrétti með vísan til þess að ummælin væru til þess fallin að vekja verulegar efasemdir um hvort með þeim væri farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×