Enski boltinn

Solskjær segir brottrekstur Pochettino ekki hafa truflandi áhrif

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Man Utd, segir brottrekstur Mauricio Pochettino frá Tottenham á dögunum ekki hafa truflandi áhrif á sitt starf.

Pochettino var áhugasamur um starfið hjá Man Utd þegar Jose Mourinho var rekinn frá félaginu í desember á síðasta ári en Ole Gunnar fékk starfið eftir að hafa staðið sig vel sem bráðabirgðastjóri. 

Nú er búið að reka Pochettino frá Tottenham og vilja margir meina að þær fréttir setji aukna pressu á Norðmanninn. Hann varður spurður út í þessa umræðu á blaðamannafundi Man Utd í dag.

„Nei, þessar vangaveltur trufla mig ekki. Ég er í besta starfi í heimi og öllum öðrum stjórum langar í þetta starf, sama hvort þeir eru atvinnulausir eða ekki svo þetta skiptir mig ekki máli,“ segir Solskjær.

„Ég verð að einbeita mér að mínu starfi fyrir Manchester United; að gera það eins vel og ég get. Ég tala við Ed (Woodward) og eigendurna í sífellu um það hvernig við getum bætt okkur og það breytir engu þó önnur félög skipti um stjóra.“

„Varðandi Mauricio, þá er alltaf leiðinlegt að sjá einn af kollegum þínum og góðan mann missa vinnuna fyrir jól,“ segir Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×