Enski boltinn

Levy: Erum að fá einn sigursælasta stjórann í boltanum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Maðurinn sem öllu ræður hjá Tottenham
Maðurinn sem öllu ræður hjá Tottenham vísir/getty
Jose Mourinho var kynntur sem nýr knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham snemma í morgun, aðeins rúmum 12 klukkustundum eftir að tilkynnt var um brottrekstur Mauricio Pochettino úr starfinu.

Ráðningin hefur vakið mikið umtal enda hefur Portúgalinn verið mikið á milli tannanna á fólki allt frá því að hann kom fyrst í enska boltann sumarið 2004. Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham, er sá maður sem er ábyrgur fyrir ráðningunni á Mourinho.

„Með Jose erum við að fá einn sigursælasta knattspyrnustjórann í fótboltanum. Hann hefur gríðarlega reynslu, getur veitt liðum sínum innblástur og er frábær taktísktlega séð,“ segir Levy.

„Hann hefur unnið til verðlauna með öll þau félög sem hann hefur þjálfað. Við trúum því að hann muni koma með aukna orku og trú í búningsklefann,“ segir Levy.

Pochettino tók við Tottenham 2014 og hefur verið í miklum metum hjá stuðningsmönnum félagsins. Hann vann hins vegar ekki einn titil fyrir félagið. Lundúnarliðið aðeins unnið einn bikar á þessari öld; enska deildabikarinn 2008.

Mourinho hins vegar einn sigursælasti knattspyrnustjóri þessarar aldar í elítufótbolta en ferilskrá hans er einkar glæsileg þar sem hann hefur unnið 25 titla síðan hann gerðist stjóri Porto í heimalandinu 2002. Hann hefur orðið landsmeistari í Portúgal, Englandi, Ítalíu og Spáni, unnið báðar Evrópukeppnirnar í tvígang svo fátt eitt sé nefnt.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×