Enski boltinn

Jose Mourinho tekinn við Tottenham

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. vísir/getty
Jose Mourinho hefur verið ráðinn nýr knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Tottenham Hotspurs. Félagið tilkynnti um þetta á heimasíðu sinni nú rétt í þessu en í gærkvöldi barst önnur tilkynning frá félaginu þess efnis að Mauricio Pochettino hefði verið rekinn úr starfi.

Forráðamenn Tottenham hafa því nýtt nóttina til að ganga frá samningum við Mourinho en ætla má að viðræður hafi staðið yfir undanfarna daga.

Mourinho gerir fjögurra ára samning við Tottenham sem situr í 14.sæti ensku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir.

Þetta er þriðja enska stórliðið sem Mourinho stýrir en hann hefur í tvígang verið við stjórnvölin hjá Chelsea auk þess sem hann stýrði Manchester United frá 2016-2018 sem var jafnframt hans síðasta starf.

Þessi 56 ára gamli Portúgali hefur einnig stýrt Porto, Real Madrid og Inter Milan og er einn af sigursælli knattspyrnustjórum þessarar aldar á stærsta sviði fótboltans. Hefur átta sinnum orðið landsmeistari og unnið Meistaradeild Evrópu tvívegis svo eitthvað sé nefnt.

Fyrsti leikur Tottenham undir stjórn Mourinho er í hádeginu á laugardag þegar liðið sækir West Ham heim.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×