Erfiðlega hefur gengið að fá innlenda fjárfesta til að leggja lággjaldaflugfélaginu Play til samtals tólf milljónir evra, jafnvirði um 1.700 milljóna króna, í hlutafé en Íslensk verðbréf (ÍV) hafa á síðustu vikum biðlað til fjárfesta um að koma að fjármögnun félagsins.
Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði um tíu prósent í nærri 350 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í gær og samkvæmt viðmælendum á fjármálamarkaði er sú hækkun rakin til þess að óvissa ríkir um hlutafjársöfnun Play en ekki hafa fengist staðfestar upplýsingar um fjárfesta sem hafi skuldbundið sig til að taka þátt í útboðinu.
Forsvarsmenn ÍV hafa kynnt fjárfestinguna fyrir fjölmörgum einkafjárfestum, fyrirtækjum, einkum sem starfa í ferðaþjónustu, og sjóðastýringarfélögum og hefur verið gert ráð fyrir þeir muni eignast 50 prósenta hlut í Play á móti stofnendum og öðrum starfsmönnum félagsins.
Samkvæmt heimildum Markaðarins hafa fjárfestar sett sig upp á móti því að stofnendur Play eignist svo stóran hlut í flugfélaginu og þá hafa þeir sett spurningarmerki við flugrekstrarreynslu stjórnendateymisins. Viðskiptaáætlanir félagsins, sem gera meðal annars ráð fyrir því að Play verði strax farið að skila um 70 milljóna hagnaði á fyrsta fjórðungi næsta árs, þykja helst til bjartsýnar og þá hafa fjárfestar kallað eftir því að fenginn verði kjölfestueigandi að flugfélaginu í hlutafjárútboðinu.
Stjórnendur Play hafa sagt að félagið hafi tryggt sér 40 milljóna evra lánsfjármögnun frá breska sjóðnum Athene Capital sem hefur sömuleiðis kauprétt að tíu prósenta hlut í Play. Til tryggingar þarf Play að vera með átta milljónir evra í reiðufé sem veð fyrir láninu sem ber átta prósent vexti.
Í fjárfestakynningu ÍV segir að lánsfjármögnunin virkist þegar hlutafjárins hafi verið aflað en í viðtali við ViðskiptaMoggann í síðustu viku sagði Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, að flugfélagið „þyrfti ekki 12 milljónirnar til þess að tryggja þessar 40 milljónir“.
