Erlent

Elon Musk sýknaður í Pedo guy-málinu

Andri Eysteinsson skrifar
Elon Musk mætir í dómshúsið í vikunni.
Elon Musk mætir í dómshúsið í vikunni. Getty/Bloomberg
Milljarðamæringurinn Elon Musk var í dag sýknaður í meiðyrðamáli sem breski hellakafarinn Vernon Unsworth háði gegn honum vegna ummæla Musk um Unsworth á Twitter. Guardian greinir frá.

Ummælin lét Musk falla á Twitter síðu sinni eftir að Musk og Unsworth höfðu skipst á skotum í kringum björgun tælensku fótboltastrákanna sem festust í helli í fyrra.

Unsworth hafði sakað Musk um að nýta sér harmleikinn fyrir athygli áður en Musk svaraði með því að kalla Unsworth barnaníðing (e. Pedo guy). Musk var harðlega gagnrýndur fyrir ummælin og eyddi hann tístunum og baðst afsökunar á þeim. Musk hélt þó áfram að vísa til Unsworth sem barnaníðings bæði á Twitter og í tölvupóstum.

Unsworth höfðaði mál gegn Musk í Los Angeles og komst kviðdómur í dag að þeirri niðurstöðu að ekki bæri að sakfella Musk og skylda hann til að greiða 190 milljónir dala í skaðabætur líkt og Unsworth hafði krafist.

Eftir að niðurstaðan lá fyrir ræddi Musk, sem þekktur er fyrir að vera í forsvari fyrir fyrirtækin Tesla og SpaceX, við blaðamenn. „Ég hef aftur öðlast trú á mannkynið,“ sagði Musk.

Unsworth hafði við fyrirtöku málsins lýst vanlíðan hans í kjölfar ummæla Musk og sagt þau ígildi lífstíðardóms. Lögfræðiteymi Musk hélt því fram að tíst hans hafi ekki verið staðhæfing heldur eingöngu ætlað sem móðgun.

Þá sýndu þeir fram á að orðspor Unsworth hafi ekki beðið hnekki vegna ummælanna og vísuðu þar til viðurkenningar sem Unsworth fékk frá Tælensku konungsfjölskyldunni auk MBE orðu breska konungsveldisins sem honum var veitt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×