Kona búsett í miðbæ Reykjavíkur óskaði eftir aðstoð lögreglu um níuleytið í morgun þar sem hún hafði fyrir slysni læst sjálfa sig úti er hún fór út með ruslið. Konan var bæði lykla- og farsímalaus en barn hennar, sem fætt er árið 2019, var eitt inni í íbúðinni, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.
Lögreglumenn komu á vettvang og opnuðu dyrnar fyrir konunni.
Á tíunda tímanum var jafnframt tilkynnt um innbrot og þjófnað í miðbænum. Þar var brotin rúða og farið inn í hús. Í dagbók lögreglu segir að þjófar hafi stolið fartölvu og fleiri munum, sem ekki eru frekar tilgreindir.
