Erlent

Eldur og táragas í Frakklandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Milljónir lögðu niður störf í Frakklandi í dag. Verkfallið lamaði almenningssamgöngur og skólastarf. Ekki er útlit fyrir að öldurnar lægi næstu daga.

Talið er að milljónir hafi tekið þátt í allsherjarverkfalli dagsins og mátti greina töluverða reiði á meðal mótmælenda. Þessa reiði mátti vel greina í höfuðborginni þar sem mótmælendur kveiktu bál og tókust á við lögregluþjóna, sem svöruðu með táragasi.

Verkfallið olli mikilli röskun á daglegu lífi, bæði á almenningssamgöngum og skólastarfi. Þá var Eiffelturninum í París lokað, svo fátt eitt sé nefnt.

Mikill stuðningur er við aðgerðirnar, 69 prósent samkvæmt könnunum. Óánægjan beinist gegn ríkisstjórninni vegna áforma hennar um að einfalda eftirlaunakerfi landsins. Í dag er fjöldi mismunandi kerfa í gildi víðs vegar um landið.

Frakklandsstjórn vill einfalda þetta og miða eftirlaunagreiðslur við fjölda unninna daga. Þá fengi fólk sömuleiðis lægri greiðslur ef það fer á eftirlaun fyrir 64 ára aldur.

Ekki er búist við því að þetta verði eini verkfallsdagurinn enda hafa verkalýðsleiðtogar heitið áframhaldandi aðgerðum þar til ríkisstjórnin hættir við áformin. Búist er við því að starfsmenn almenningssamgangna verði í verkfalli fram á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×