Erlent

Undirbúa sig fyrir umfangsmestu verkfallsaðgerðir landsins í áratugi

Samúel Karl Ólason skrifar
Mögulega munu aðrir opinberir starfsmenn einnig taka þátt, allt frá dómurum til sorphirðumanna og forsvarsmenn lögreglunnar hafa lýst yfir stuðningi við aðgerðirnar.
Mögulega munu aðrir opinberir starfsmenn einnig taka þátt, allt frá dómurum til sorphirðumanna og forsvarsmenn lögreglunnar hafa lýst yfir stuðningi við aðgerðirnar. EPA/SEBASTIEN NOGIER
Yfirvöld Frakklands undirbúa sig nú fyrir verkfallsaðgerðir sem hefjast á morgun og talið er að geti verið þau stærstu í landinu í rúma tvo áratugi. Frakkar eru öllu vanir þegar kemur að verkfallsaðgerðum og mótmælum en talið er líklegt að aðgerðirnar muni lama samfélagið í Frakklandi en þær gætu staðið yfir fram að jólum.

Starfsmenn lestarkerfis Frakklands ætla í verkfall og hefur það áhrif á nánast allar samgöngur Frakklands. Búið er að hætta við fjölda lestaferða og hægja á öðrum. Aðgerðirnar munu sömuleiðis hafa veruleg áhrif á alþjóðaflug og er þegar búið að fella fimmtung flugferða niður.

Kennarar ætla einnig að taka þátt í verkfallsaðgerðunum og sömuleiðis margir starfsmenn póstsins. Mögulega munu aðrir opinberir starfsmenn einnig taka þátt, allt frá dómurum til sorphirðumanna og forsvarsmenn lögreglunnar hafa lýst yfir stuðningi við aðgerðirnar.

Samkvæmt France24 áttu síðustu sambærilegu verkfallsaðgerðir sér stað árið 1995. Þær ollu miklum usla og stóðu yfir í þrjár vikur.



Aðgerðirnar snúa að miklu leyti að umfangsmiklum breytingum sem Emmanuel Macron, forseti Frakklands, vill gera á eftirlaunakerfi landsins. Meðal þess sem hann vill gera er að einfalda kerfið og sameina 42 mismunandi sjóði.

Það myndi þó hafa mikil áhrif á opinbera starfsmenn sem njóta sérstakra fríðinda.

Aðgerðir Macron myndu sömuleiðis þýða að fólk færi seinna á eftirlaun og fengi minna úr eftirlaunasjóðum. Þá tækju eftirlaun mið af starfsferli og aðilar sem væru ef til vill atvinnulausir um tíma, fengju lægri eftirlaun en aðrir sem hafi verið í fullri vinnu allan ferilinn, samkvæmt frétt France24.

Þær kæmu þó sérstaklega niður á kjörum starfsmanna lestarkerfis Frakklands sem hafa notið sérstakra fríðinda í gegnum tíðina. Þeir eru æviráðnir, vinnuvika þeirra er styttri en gengur og gerist og laun þeirra hækka reglulega samkvæmt samningum. Þá geta þeir sest í helgan stein þegar þeir eru 52 ára gamlir. Það er áratug fyrr en aðrir Frakkar.

Þar að auki miða eftirlaun þeirra einungis við síðustu sex mánuði þeirra í starfi og fjölskyldur þeirra fá mikla afslætti á fargjöldum.

Þetta vill ríkisstjórn Frakklands fella niður.

Kannanir benda þó til að meirihluti frönsku þjóðarinnar styðji verkfallsaðgerðirnar og óttast margir að aðgerðir ríkisins gegn starfsmönnum lestarkerfisins yrðu þær fyrstu af mörgum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×