Íslendingarnir í Ribe-Esbjerg skoruðu samtals sjö mörk þegar liðið vann SønderjyskE, 30-24, í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Með sigrinum komst Ribe-Esbjerg upp í 2. sæti deildarinnar. Liðið er með 17 stig, sex stigum á eftir toppliði Aalborg.
Gunnar Steinn Jónsson skoraði fjögur mörk fyrir Ribe-Esbjerg í kvöld og gaf fjórar stoðsendingar. Rúnar Kárason skoraði þrjú mörk.
Daníel Þór Ingason komst ekki á blað hjá Ribe-Esbjerg sem hefur unnið tvo leiki í röð.
Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fjögur mörk fyrir SønderjyskE og gaf þrjár stoðsendingar.
SønderjyskE er í 6. sæti deildarinnar. Liðið hefur tapað tveimur leikjum í röð.

