Enski boltinn

Segja að Ancelotti verði orðinn knattspyrnustjóri Gylfa fyrir helgi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti.
Carlo Ancelotti. Getty/Salvatore Laporta

Fátt kemur í veg fyrir það að Carlo Ancelotti setjist í knattspyrnustjórastólinn hjá Everton og ensku blöðin búast við því að Everton gangi frá ráðningu hans fyrir helgi.

Carlo Ancelotti þurfti tíma til að ganga frá sínum málum hjá Napoli en ítalska félagið rak hann sama kvöld og hann stýrði liðinu inn í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Telegraph segir að Carlo Ancelotti og Everton séu búin að ganga frá meginþáttum samningsins og Sky Sport segir að Ancelotti verði orðinn knattspyrnustjóri Gylfa og félaga fyrir helgi.

 

Duncan Ferguson hefur stýrt Everton liðinu síðan félagið rak Marco Silva en heimildir Telegraph herma að hann muni líka stýra liðinu í deildarleiknum á móti Arsenal á laugardaginn.

Samkvæmt því tæki Carlo Ancelotti því ekki formlega við liðinu fyrr en á mánudaginn kemur og fyrsti leikur ítalska stjórans yrði þá ekki fyrr en á annan dag jóla. Everton mætir þá Burnley í Íslendingaslag.

Carlo Ancelotti hefur þegar misst verðandi yfirmenn sína hjá Everton samkvæmt frétt Telegraph og hefur gengið frá teyminu sínu. Í því verða væntanlega sonur hans Davide, Francesco Mauri og tengdasonur Ancelotti, næringafræðingurinn Mino Fulco.



Ancelotti hefur fengið vilyrði fyrir því að hann geta gert breytingar á leikmannahópi Everton þegar félagsskiptaglugginn opnar í næsta mánuði og að eignandi Everton, Farhad Moshiri, hafi enn metnað til að koma félaginu inn á topp sex.

Carlo Ancelotti fær væntanlega samning til ársins 2024 eða jafnlangan samning og Jürgen Klopp var að skrifa undir hjá verðandi nágrönnunum Everton í Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×