Innlent

Landsnet beið í rúm tvö ár eftir leyfi frá sveitarfélaginu fyrir framkvæmdum á Sauðárkrókslínu

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Sauðárkróki í vikunni.
Frá Sauðárkróki í vikunni. Vísir/JóiK

Landsnet var tilbúið að hefja framkvæmdir á Sauðárkrókslínu, sem brást gjörsamlega í óveðrinu í liðinni viku, í fyrra en verkið tafðist vegna leyfisveitinga. Rafmagn fór af Skagafirði í óveðrinu á þriðjudag og var raforkuskömmtun á Sauðárkróki í tvo daga. Það þýddi mikla röskun á öllu bæjarlífinu, ekki var hægt að reiða sig á rafkyndingu, fjarskipti rofnuðu og starfsemi fyrirtækja lá niðri.

Skagfirðingar reiða sig á Sauðárkrókslínu sem brást gjörsamlega í óveðrinu. Hún er orðin 40 ára gömul en Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, sagði í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að bæjarfélagið hefði í tíu ár legið í yfirvöldum að gerðar yrðu úrbætur á línunni. Sigfús sagði ekki átta sig á því hvers vegna framkvæmdir hefðu ekki hafist fyrr.

Hún hafi ekki verið umdeild og enginn sett sig á móti því að hún yrði lögð í jörðu. Framkvæmdir hófust við lagfæringar á línunni í haust.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets sagði á Sprengisandi að hefði nýja línan verið til taks hefði aðeins orðið rafmagnslaust í skamma stund.

„Það tekur mjög langan tíma að klára alla ferlana. Í þessu Sauðárkróksferli vorum við búin að full fjármagna okkur árið 2017 og ætluðum að klára framkvæmdir á síðasta ári. En leyfin voru að koma síðasta haust,“ sagði Guðmundur Ingi.

Leyfin sem um ræðir voru frá sveitarfélaginu sjálfu og vörðuðu breytingar á aðalskipulagi. Guðmundur sagði Landsnet hafa beðið í tvö og hálft ár eftir leyfinu. „Leyfin komu ekki fyrr en í haust og við hófum framkvæmdir mánuði seinna.“

Sveitarstjórn Skagafjarðar bendir á að Sauðárkrókslína 2 hafi verið inni aðalskipulagi frá 2012. Landsnet sótti um breytingar 2017 sem sveitarfélagið afgreiddi síðan í apríl 2019. Landsneti hafi ekki sótt um framkvæmdaleyfi fyrr en 18. júlí 2019 sem sveitarstjórnin afgreiddi 31. júlí.

Fréttin var uppfærð kl. 15:40 með athugasemd frá sveitarstjórn Skagafjarðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×