Innlent

Alltaf hressandi að fara út og gera eitthvað skemmtilegt

Jóhann K. Jóhannsson og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Brynjar Logi Steinunnarson, formaður Skagfirðingarsveitar á Sauðárkróki.
Brynjar Logi Steinunnarson, formaður Skagfirðingarsveitar á Sauðárkróki.

Brynjar Logi Steinunnarson, formaður Skagfirðingarsveitar á Sauðárkróki, segir sveitina klára fyrir verkefni kvöldsins. Veður hefur verið slæmt á Króknum í dag og er von á að það versni eftir því sem líður á kvöldið.

Brynjar telur sveitina mjög klára í slaginn og hafa undirbúið sig vel.

„Mjög vel. Þetta er góður og mikill mannskapur sem er tilbúinn,“ segir Brynjar Logi.

Sveitarfólkið sé öllu vant þótt spáin sé vissulega óvenjuslæm núna. Honum líst ágætlega á kvöldið.

„Það er alltaf hressandi að fara aðeins út og gera eitthvað skemmtilegt.“

Verkefni dagsins hafi falist í því að grípa hluti sem voru að fjúka, á borð við ruslatunnur og stóla. Almenningur hafi verið virkilega vel búinn undir veðrið.

„Við erum þrettán sem erum hérna klárir niðri í húsi. Svo eru fleiri í bakhöndinni ef vantar.“

Hann reiknar með að sveitin noti snjóbílinn í aðgerðum á Króknum í kvöld.

„Það kæmi mér ekki á óvart. Eins ef það kæmu verkefni hér fyrir utan Sauðárkrók.“

Lesa má um öll nýjustu tíðindi tengd veðri í Vaktinni á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×