Innlent

Akureyringar lagstir í híði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það var tómlegt um að lítast í miðbæ Akureyrar í dag.
Það var tómlegt um að lítast í miðbæ Akureyrar í dag.

Segja má að Akureyringar séu lagstir í híði en fjölmargar verslanir lokuðu snemma og stór hluti þjónustu á vegum Akureyrarbæjar liggur niðri vegna veðurs.

Mikil úrkoma hefur verið í allan dag á Akureyri og töluvert hvassviðri. Snjókoman hefur verið töluvert blaut og eru margar götur bæjarins orðnar illfærar. Þá er skyggni lélegt á milli húsa og ítrekar lögregla við bæjarbúa og nærsveitunga að halda sig heima fyrir, ekki síst í kvöld þegar gert er ráð fyrir að veðrið nái hámarki.

Á Glerártorgi er afar tómlegt um að lítast en þar lokuðu fjölmargar verslanir fljótlega eftir hádegi vegna veðurs. Þá lokuðu allir leik- og grunnskólar bæjarins klukkan eitt auk þess sem að veðrið hefur haft áhrif á próftíð í framhaldsskólum bæjarins sem og Háskólanum á Akureyri. Bæði Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri verða lokaðir á morgun

Svona var staðan klukkan tvö á Glerártorgi.Vísir/Tryggvi Páll

Þá falla alla strætóferðir Akureyrar niður í kvöld og í fyrramálið vegna ofsaveðurs og ófærðar. Síðustu ferðirnar verða farnar á sjötta tímanum í dag.

Í fyrramálið er gert ráð fyrir að það verði mikil ófærð í bænum og ekkert ferðaveður og er því ekki gert ráð fyrir strætóferðum fyrir hádegi.

Þá var sundlaugum bæjarins og íþróttahúsum lokað klukkan tvö sem og Ráðhúsinu við Geislagötu og á skrifstofum fræðslusviðs, búsetusviðs og fjölskyldusviðs í Glerárgötu 26. Opnað verður eftir hádegi á morgun, miðvikudag, ef veður leyfir.

Rósenborg, heimili samfélagssviðs og þar með talið Punktsins, félagsmiðstöðva og Ungmennahússins, hefur einnig verið lokað í dag. Staðan verður tekin aftur í fyrramálið.

Þá verður heimaþjónusta Akureyrarbæjar með skertu sniði í kvöld og á morgun og er fólk beðið að sýna því skilning en nánari upplýsingar um lokanir má nálgast á vef bæjarins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×