Viðskipti innlent

Útrunnið vínveitingaleyfi Spot setur Pallaball í uppnám

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Páll Óskar.
Páll Óskar. Vísir/Vilhelm

Skemmtistaðnum Spot í Kópavogi var lokað í gær vegna útrunnins vínveitingaleyfis. Þetta kemur fram á vef DV.

Í frétt DV segir einnig að um hundrað manns í einkasamkvæmi hafi verið gert að yfirgefa staðinn.

Á gamlárskvöld stendur til að svokallað áramótaball með Páli Óskari fari fram, en Vísir heyrði í Páli Óskari vegna málsins.

Í samtali við fréttastofu staðfesti Páll Óskar að staðurinn hafi verið lokaður í dag. Hann hafi verið staddur á Egilsstöðum í gærkvöldi þegar hann frétti af málinu, í morgun hafi hann síðan ákveðið að líta við fyrir utan skemmtistaðinn, þar sem búið var að hengja handskrifaðan miða í hurðina.

Á miðanum hafi staðið að vegna „óviðráðanlegra ástæðna“ yrði staðurinn lokaður þangað til á morgun, þar sem vínveitingaleyfi staðarins hafi runnið út 19. desember. Undir miðann hafi skrifað Árni Björnsson, eigandi staðarins.

„Ég tók þá ákvörðun að anda rólega þangað til níu í fyrramálið, en Sýslumaðurinn í Kópavogi opnar þá. Þá fæ ég úr því skorið hvort Árni fái vínveitingaleyfið,“ segir Páll Óskar, en hann segist jafnframt ekki hafa fengið nein svör frá forsvarsmönnum staðarins og vonast hann til að þeir hafi samband við hann við fyrsta tækifæri.

Það liggur því ekki ljóst fyrir hvort áramótaball með Páli Óskari kemur til með að fara fram á Spot á gamlárskvöld, en enn virðist vera hægt að festa kaup á miðum á ballið á miða.is.

Ekki náðist í Árna við vinnslu þessarar fréttar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×