Viðskipti erlent

Hluthafar krefja Danske bank um milljarða vegna peningaþvættisins

Kjartan Kjartansson skrifar
Stófellt peningaþvætti fór fram í gegnum útibú Danske bank í Tallin.
Stófellt peningaþvætti fór fram í gegnum útibú Danske bank í Tallin. Vísir/EPA

Hópur fagfjárfesta hefur stefnt Danske bank vegna tjóns sem þeir telja sig hafa orðið í tengslum við stórfellt peningaþvætti sem bankinn er sakaður um að hafa staðið fyrir. Fjárfestarnir krefja bankann um einn og hálfan milljarð danskra króna, jafnvirði um 27,3 milljarða íslenskra króna.

Danska lögfræðistofan Nemeth Sigetty segist koma fram fyrir hönd um sjötíu fjárfesta sem stefndu bankanum. Þeirra á meðal eru lífeyrissjóðir, tryggingafélög og fjárfestingarsjóðir sem starfa í sextán löndum, að sögn Berlingske.

Krafan byggir á að fjárfestarnir hafi tapað stórfé þegar hlutabréf í Danske bank hríðféllu þegar upplýst var um peningaþvættið. Stjórnendur bankans hafi veitt hluthöfum misvísandi upplýsingar og leynt því að stór hluti hagnaðar hans hafi byggst á ólöglegu og áhættusömu peningaþvætti. Fleiri mál af þessu tagi hafa þegar verið höfðuð gegn bankanum.

Talið er að um fimmtán hundruð milljarðar danskra króna hafi streymt í gegnum útibú Danske bank í Eistlandi á árunum 2007 til 2015. Þar hafi verið á ferðinni illa fengið fé frá löndum eins og Rússlandi, Moldóvu og Aserbaídsjan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×