Innlent

Flugeldum fyrir um tvær milljónir stolið af skátum í Kópavogi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Flugeldasala er stór hluti í fjáröflunarstarfi björgunarsveita hér á landi, Myndin tengist efni fréttarinnar óbeint.
Flugeldasala er stór hluti í fjáröflunarstarfi björgunarsveita hér á landi, Myndin tengist efni fréttarinnar óbeint. vísir/vilhelm

Brotist var inn í húsnæði Hjálparsveitar skáta í Kópavogi á dögunum og talsverðu magni flugelda stolið. Talið er að söluverðmæti flugeldanna sé um tvær milljónir króna.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu sveitarinnar. Þar segir einnig að tjónið sé ekki síður tilfinningalegt fyrir meðlimi sveitarinnar. Þeir hafi unnið hörðum höndum allan desembermánuð að undirbúningi flugeldasölunnar, allt í sjálfboðavinnu.

„Það var svo á aðfangadag sem síðasti mannskapur yfirgaf húsið eftir leit við erfiðar aðstæður á suðurlandi. Þegar komið var að í dag kom þjófnaðurinn í ljós og biðjum við alla þá sem hafa einhverjar upplýsingar um málið að hafa samband við lögreglu,“ segir í færslunni. Því er ljóst að brotist var inn einhvern tímann á þessu tímabili.

Þar kemur einnig fram að hinir stolnu flugeldar séu stórar tertur, þar af margar sérstaklega merktar Hjálparsveit skáta í Kópavogi, svokölluð afmælisterta sveitarinnar sem var keypt inn í takmörkuðu magni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×