Erlent

Far­þegar björguðu málunum þegar spor­vagn­stjóri missti með­vitund

Sylvía Hall skrifar
Sporvagninn var á leið til borgarinnar Bonn.
Sporvagninn var á leið til borgarinnar Bonn. Vísir/Getty

Tveir farþegar brutu sér leið inn í stjórnklefa sporvagns í Þýskalandi í gær eftir að sporvagnstjóri missti meðvitund. Farþegum fór að gruna að ekki væri allt með felldu eftir að sporvagninn hafði keyrt fram hjá nokkrum skiptistöðvum án þess að stoppa.

Sporvagninn var á leið til borgarinnar Bonn þegar atvikið átti sér stað. Mikil örvænting greip um sig meðal farþega sem hringdu í fyrirtækið sem sér um rekstur vagnanna og báðu um hjálp. Þegar farþegarnir tveir höfðu komist inn í stjórnklefann sáu þeir að sporvagnstjórinn var meðvitundarlaus.

Farþegarnir höfðu áður reynt að hringja í lögreglu en neyðarbremsa vagnsins virkaði ekki sem skyldi þegar farþegar reyndu að stöðva vagninn. Að sögn rekstrarfyrirtækisins hefðu farþegar ekki getað stöðvað vagninn með þeim hætti þar sem neyðarbremsan stöðvar ekki vagninn heldur sendir boð til vagnstjóra sem stöðvar svo vagninn.

Málið er nú til rannsóknar hjá yfirvöldum en útlit er fyrir að búnaður í stjórnklefanum sem á að senda tilkynningu ef vagnstjóri missir meðvitund hafi bilað. Ashok Sridharan, borgarstjóri Bonn, sagði farþega hafa brugðist hárrétt við og að öllum líkindum bjargað mannslífum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×