Í morgun var greint frá því hvaða tíu fengu flest atkvæði í kjörinu á íþróttamanni ársins 2019. Kjörinu verður lýst í Hörpu 28. desember.
Sjö karlar og þrjár konur eru á meðal tíu efstu á listanum. Þrír fótboltamenn eru á meðal tíu efstu, einn sundmaður, einn keilumaður, einn handboltamaður, ein frjálsíþróttakona, einn kylfingur, einn kraftlyftingamaður og einn körfuboltamaður.
Gylfi Þór Sigurðsson er í níunda sinn á meðal tíu efstu. Aðeins tveir fótboltamenn hafa verið oftar á topp tíu; Ásgeir Sigurvinsson (11) og Eiður Smári Guðjohnsen (10).
Gylfi hefur verið á meðal tíu efstu í kjörinu átta ár í röð. Hann var valinn íþróttamaður ársins 2013 og 2016.
Sara Björk Gunnarsdóttir, sem var valin íþróttamaður ársins í fyrra, er í áttunda sinn á meðal tíu efstu og í sjöunda sinn í röð.
Fjögur eru á meðal tíu efstu í fyrsta sinn; Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Glódís Perla Viggósdóttir, Anton Sveinn McKee og Arnar Davíð Jónsson. Sá síðastnefndi er fyrsti keilumaðurinn sem er á meðal tíu efstu í kjörinu.
Alfreð Gíslason, Óskar Hrafn Þorvaldsson og Patrekur Jóhannesson fengu flest atkvæði í kjörinu á þjálfara ársins. Og kvennalið Vals í körfubolta, kvennalið Vals í handbolta og karlalið Selfoss í handbolta koma til greina sem lið ársins.
Frétt Guðjóns Guðmundssonar um íþróttamann ársins 2019 má sjá hér fyrir neðan.