Enski boltinn

Liverpool fær mun meiri tíma en Man. City og Leicester til að jafna sig á milli jólaleikjanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raheem Sterling í leik með Manchester City á móti Liverpool á Anfield fyrr í vetur.
Raheem Sterling í leik með Manchester City á móti Liverpool á Anfield fyrr í vetur. Getty/Simon Stacpoole

Manchester City segist hafa gert athugasemd við uppröðun leikjanna í ensku úrvalsdeildinni yfir jólin en þar er ekki alveg jafnt á komið með toppliðunum.

Það er stutt á milli leikja yfir hátíðirnar en það munar samt talsvert á álaginu á liðunum. Breska ríkisútvarpið tók saman tíma á milli leikja ensku liðanna á milli jóla og nýárs.

Liverpool er tíu stigum á undan Leicester City og ellefu stigum á undan Manchester City. Liverpool færi miklu meiri hvíld milli leikja en helstu keppinautar þeirra í töflunni.

BBC segir frá því að Manchester City hafi þegar kvartað við yfirmenn ensku úrvalsdeildarinnar af því að liðið þarf að spila tvisvar á 48 klukkutímum.

Það líða nefnilega bara 46 klukkutímar og fimmtán mínútur á milli leikja liðsins á móti Wolves 27. desember og á móti Sheffield United 29. desember. Leikurinn við Úlfanna er á útivelli en það tekur um tvo klukkuttíma að keyra frá Manchester til Wolverhampton.



Við þetta bætist að lið Sheffield United, mótherji Manchester City eftir þessa stuttu hvíld, fær 75 klukkutíma á milli leikja eða næstum því tvöfalt lengri tíma en City menn.

„Ég skrifaði bréf til ensku úrvalsdeildarinnar til að þakka þeim fyrir,“ sagði Pep Guardiola fullur af kaldhæðni á blaðamannafundi.

Á meðan það eru rúmir 46 klukkutímar milli leikja Manchester City og rúmir 45 klukkutímar milli leikja Leicester City þá líða 68 klukkutímar og 30 mínútur milli leikja hjá Liverpool á milli jóla og nýárs.

Liverpool liðið mætir Leicester City klukkan 20.00 á öðrum degi jóla, 26. desember, en spilar síðan ekki næst fyrr en 29. desember klukkan 16.30 og þá á móti Wolverhampton Wanderers.

Aðeins Arsenal, Chelsea og Sheffield United fá lengri tíma á milli leikja en Liverpool. Wolves er aftur á móti það lið sem fær minnsta tíma til að jafna sig á milli leikja og það fyrir leik á móti toppliði Liverpool.

Það má sjá tíma milli leikja hjá öllum liðum deildarinnar með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×