Handbolti

KA staðfestir komu Rutar og Ólafs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Handboltaparið Rut Jónsdóttir og Ólafur Gústafsson leika fyrir norðan næstu tvö árin.
Handboltaparið Rut Jónsdóttir og Ólafur Gústafsson leika fyrir norðan næstu tvö árin. vísir/bára/getty

KA hefur staðfest komu Rutar Jónsdóttur og Ólafs Gústafssonar til félagsins. Í morgun greindi Vísir frá því að þau væru á leið norður. Rut og Ólafur skrifuðu bæði undir tveggja ára samning við KA/Þór og KA.

Næsta tímabil verður fyrsta tímabil Rutar á Íslandi síðan hún lék með HK 2007-08. Hún lék tólf ár í Danmörku, með Team Tvis Holstebro, Randers, FCM Håndbold og Esbjerg. Hún varð danskur meistari með Esbjerg, EHF-meistari með Team Tvis Holstebro og bikarmeistari með Randers.

Rut, sem er 29 ára, hefur verið í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu í meira en áratug og hefur leikið með því á þremur stórmótum.

Ólafur, sem er 31 árs, hefur leikið með FH og Stjörnunni hér á landi, Aalborg og KIF Kolding í Danmörku og Flensburg í Þýskalandi. Með síðastnefnda liðinu vann hann Meistaradeild Evrópu.

Ólafur hefur leikið með íslenska landsliðinu á tveimur stórmótum (HM 2013 og 2019).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×