Innlent

„Við ætlum ekki að gefa neitt eftir“

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Verkfallsverðir Eflingar fóru um í dag og fylgdust með hvort verið væri að virða verkfallið.
Verkfallsverðir Eflingar fóru um í dag og fylgdust með hvort verið væri að virða verkfallið. Vísir/Friðrik Þór

Skólahald lá niðri eða var skert í nokkrum leik- og grunnskólum í Kópavogi í dag vegna verkfalls Eflingar. Ekki var fundað í deilunni í dag og enginn fundur hefur verið boðaður.

Verkfall nærri þrjú hundruð félagsmanna Eflingar sem vinna hjá Kópavogsbæ og fleiri sveitarfélögum hófst á hádegi í gær. Verkfallið hefur áhrif á fjóra grunnskóla og fjóra leikskóla í bænum en vegna verkfallsins eru nær engin þrif í þessum skólum. Í dag var því flestum þeirra lokað að mestu leyti. 

„Við náttúrulega lokuðum skólanum í morgun og við getum náttúrlega ekki haldið úti lögbundnu skólastarfi. Þannig þetta bitnar bara mjög illa á okkur,“ segir Sigrún Bjarnadóttir skólastjóri Álfhólsskóla.

Hún segir ljóst að aðeins sé hægt að taka móti elstu nemendunum hluta úr degi á meðan að verkfallið stendur en hinir nemendurnir verða að vera heima. „10. bekkur kom í dag og ég sem sagt sá um þrif í gær til þess að þau gætu komið í dag og við ætlum að stefna að því að þau geti komið til okkar.“

„Við höfum ekki orðið vör við nein verkfallsbrot. Við urðum reyndar vör við mikið af útikennslu sem að okkur var sagt að væri samkvæmt stundaskrá og við verðum bara að treysta því,“ segir Valgerður Árnadóttir teymisstjóri félagssviðs Eflingar sem sinnti verkallsvörslu í dag.

„Það er baráttuhugur í öllum. Við ætlum ekki að gefa neitt eftir núna,“ segir Fríða Hammer starfsmaður heimaþjónustu Kópavogs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×