Erlent

Hvetja Frakka til að hjóla þegar slakað verður á takmörkunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Slakað verður á sumum takmörkunum vegna faraldursins í París á mánudag. Stjórnvöld ráðleggja fólki að hjóla frekar en að nota almenningssamgöngur til þess að draga úr mannmergð þar.
Slakað verður á sumum takmörkunum vegna faraldursins í París á mánudag. Stjórnvöld ráðleggja fólki að hjóla frekar en að nota almenningssamgöngur til þess að draga úr mannmergð þar. AP/Francois Mori

Biðraðir hafa myndast við hjólaverslanir og verkstæði í París eftir að frönsk stjórnvöld hvöttu landsmenn til að hjóla til að draga úr mannmergð í almenningssamgöngum þegar slakað verður á takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins á mánudag.

AP-fréttastofan segir að margir Parísarbúar séu uggandi um að þurfa að nota neðanjarðarlestir eða strætisvagna vegna veirunnar. Því stefni margir að því að hjóla í vinnuna frekar en að nota almenningssamgöngur.

Tímabundar hjólaakreinar verða opnaðar í París og bílaumferð verður bönnuð um Rivoli-stræti við Louvre-safnið. Frönsk stjórnvöld segjast ennfremur ætla að niðurgreiða viðgerðir fyrir hjólaeigendur um allt að fimmtíu evrur, jafnvirði tæpra átta þúsund íslenskra króna.

Leyft verður að opna grunnskóla og flest fyrirtæki á mánudag. Stjórnvöld hafa hins vegar skipt landinu upp í tvö svæði eftir alvarleika faraldursins, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þannig verða takmarkanir áfram í gildi í París þrátt fyrir að þeim verði aflétt annars staðar í næstu viku. Almenningsgarðar verða áfram lokaðir í höfuðborginni.

Notendur almenningssamgangna þurfa að nota grímur og verslanir mega krefjast þess að viðskiptavinir noti þær. Tilmæli um félagsforðun verða áfram í gildi.

Um 26.000 manns hafa látið lífið á sjúkrahúsum og á hjúkrunarheimilum í faraldrinum í Frakklandi til þessa. Dregið hefur úr nýsmitum og dánartíðninni að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×