Fótbolti

Segir Maradona betri en Messi eftir að hafa verið í návígi við þá báða

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Cannavaro í baráttu við Messi.
Cannavaro í baráttu við Messi. Vísir/getty

Fabio Cannavaro er einn fárra í fótboltaheiminum sem hefur komist í návígi við bæði Lionel Messi og Diego Maradona upp á sitt besta inn á fótboltavellinum og hann er ekki í nokkrum vafa um hvor er betri.

Cannavaro hóf sinn feril með aðalliði Napoli ári eftir að Maradona hafði yfirgefið félagið í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar. Cannavaro náði ekki að leika með Maradona en var byrjaður að spila með unglingaliðum félagsins þegar Maradona var aðalmaðurinn í Napoli.

Cannavaro náði langt á ferli sínum og var meðal annars valinn besti leikmaður heims árið 2006 en það sama ár gekk hann í raðir Real Madrid og átti þar eftir að etja kappi við Messi sem var óðum að stimpla sig inn sem besti knattspyrnumaður heims en hann vann gullboltann í fyrsta sinn árið 2009, árið sem Cannavaro yfirgaf Real Madrid.

„Ég ber mikla virðingu fyrir Messi. Hann er einn besti leikmaður sinnar kynslóðar. En Maradona er öðruvísi. Fótboltinn var öðruvísi. Hann var ítrekað sparkaður niður en náði alltaf að stjórna leiknum og hann var harður af sér,“ segir Cannavaro áður en hann ræðir um hver er besti knattspyrnumaður sögunnar.

„Messi er frábær en Maradona er úr öðrum heimi. Ég ber hann aldrei saman við aðra leikmenn. Ég sá aldrei Pele spila en ég horfði á hvern einasta leik hjá Maradona í sjö ár. Hann er ekki einn af þeim bestu; hann er sá besti,“ segir Cannavaro sem þjálfar nú í kínverska boltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×