Eigandi kísilversins í Helguvík stefnir að því að hefja endurbætur á verksmiðjunni í byrjun næsta árs með það að markmiði að hún geti tekið til starfa á ný eftir tvö ár. Skýrsla um umhverfismat endurbótanna hefur verið auglýst til kynningar. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Kísilverksmiðjan sem United Silicon reisti í Helguvík hefur staðið ónotuð í hartnær þrjú ár en hún hafði aðeins starfað í tíu mánuði þegar Umhverfisstofnun stöðvaði rekstur hennar haustið 2017 eftir ítrekaðar kvartanir íbúa í grennd vegna mengunar, sem ekki tókst að ráða bót á. Félagið var þá komið í greiðslustöðvun og var skömmu síðar úrskurðað gjaldþrota.
Frumkvöðullinn Magnús Garðarsson sætir nú rannsókn héraðssaksóknara vegna ábendinga skiptastjóra og kröfuhafa um hugsanleg auðgunarbrot. Fyrstu samningum hans um kísilver fyrir níu árum, sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna kom að, lýsti þáverandi iðnaðarráðherra sem ísbrjóti í atvinnumálum Suðurnesja.
Sjá frétt Stöðvar 2 frá árinu 2011: Kísilverið upphaf umskipta á Suðurnesjum
Fyrsta skóflustunga var svo tekin í ríkisstjórnartíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar árið 2014, framkvæmdir fóru á fullt, og tveimur árum síðar var verksmiðjan gangsett.
Félag í eigu Arion banka, Stakksberg ehf., sem keypti kísilverksmiðjuna af þrotabúinu, hefur núna kynnt áætlun um endurbætur svo hefja megi framleiðslu á ný. Helsta forsendan er umhverfismat sem Skipulagsstofnun auglýsti fyrir helgi, en frestur til athugasemda rennur út eftir sex vikur.

Stakksberg segir umhverfismatið sýna að loftgæði muni batna verulega með endurbótunum sem felast meðal annars í byggingu 52 metra hárra reykháfa.
Áætlað er að fimm milljarða króna framkvæmdir geti hafist á fyrsta fjórðungi næsta árs, þær taki um fjórtán mánuði og muni á því tímabili skapa allt að níutíu bein störf. Í kynningu Stakksbergs segir að þegar fyrsti áfangi verksmiðjunnar verði kominn í rekstur sé gert ráð fyrir 80 störfum og allt að 160 afleiddum störfum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: