Erlent

Skarpasta myndin af yfirborði Mars til þessa

Kjartan Kjartansson skrifar
Hluti af víðmynd Curiosity sem var sett saman úr myndum sem voru teknar á yfirborði Mars frá 24. nóvember til 1. desember árið 2019.
Hluti af víðmynd Curiosity sem var sett saman úr myndum sem voru teknar á yfirborði Mars frá 24. nóvember til 1. desember árið 2019. NASA/JPL-Caltech/MSSS

Víðmynd sem bandaríski könnunarjeppinn Curiosity tók í fyrra er sú skarpasta sem tekin hefur verið af yfirborði Mars. Bandaríska geimvísindastofnunin NASA birti myndina í gær sem er samsett úr fleiri en þúsund myndum og 1,8 milljörðum díla.

Það tók Curiosity meira en sex og hálfa klukkustund yfir fjögurra daga tímabil í nóvember að taka myndirnar sem voru síðan settar saman í víðmyndina, að því er segir í tilkynningu á vef NASA. Myndirnar voru teknar í Glen Torridon, svæði í hlíðum Sharp-fjalls sem Curiosity kannar nú á meðan flestir starfsmenn leiðangursins voru í fríi yfir þakkargjörðarhátíðina í Bandaríkjunum.

Á myndinni má sjá sendinn og grýttan jarðveginn í næsta umhverfi könnunarjeppans, hóla og hlíðar og bláleitan himininn í fjarska.

Curiosity lenti í Gale-gígnum á Mars í ágúst árið 2012. Frá árinu 2014 hefur jeppinn rúntað um rætur Sharp-fjalls í miðju gígsins og leitað að ummerkjum um fljótandi vatn sem talið er að hafi flætt yfir yfirborð Mars í fyrndinni.

Hér má finna víðmyndir Curiosity í hæstu mögulegu upplausn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×