Innlent

Svona var blaðamannafundurinn um afléttingu ferðatakmarkana

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Vísir/vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra boðar til blaðamannafundar í dag um afléttingu ferðatakmarkana. Fundurinn verður í Safnahúsinu við Hverfisgötu og hefst hann klukkan 15:00. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Bein útsending verður af fundinum hér á Vísi, Bylgjunni og sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi. Þá verður textalýsing í boði hér að neðan fyrir þá sem geta ekki hlustað á það sem fram kemur á fundinum.

Uppfært: Hér má sjá upptöku af fundinum í heild sinni.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir verða viðstödd fundinn og veita fjölmiðlum viðtöl.

Ekki hefur verið gefið út hvað nákvæmlega muni felast í þeim tilslökunum á ferðatakmörkunum sem forsætisráðherra hyggst kynna á fundinum á eftir. Tillögur stýrihóps um afléttingu ferðatakmarkana, sem og breytingar á reglum um sóttkví, voru á dagskrá ríkisstjórnarfundar í morgun. Hópurinn skilaði tillögum sínum í gær.

Fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í gær vegna kórónuveirunnar að hann myndi leggja til við heilbrigðisráðherra að þær ferðatakmarkanir sem nú eru í gildi vegna faraldurs kórónuveiru gildi áfram eftir 15. maí; líklega mánuð til viðbótar, þ.e. til 15. júní. Ekki væri þó loku fyrir það skotið að fyrirkomulaginu yrði breytt áður en mánuðurinn er úti.

Núverandi fyrirkomulag er í gildi til 15. maí. Fyrirkomulagið kveður á um bann við komum ríkisborgara utan EES og EFTA til landsins. Þá er öllum þeim sem hingað koma skylt að sæta tveggja vikna sóttkví.


Tengdar fréttir

Sjá fram á lengri kórónuveirukreppu

Forsvarsmenn fyrirtækja innan vébanda Samtaka atvinnulífsins áætla að frekari uppsagnir séu væntanlegar og að kórónuveirukreppan verði lengri en þeir töldu.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×