Innlent

200 mega koma saman 25. maí

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundinum í dag.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundinum í dag. Lögreglan

Sóttvarnalæknir mun leggja það til við heilbrigðisráðherra á næstu dögum að fjöldamörk samkomubanns verði miðuð við 200 manns frá og með 25. maí, þegar frekari tilslakanir á veiruaðgerðum stjórnvalda taka gildi.

Fjöldamörk samkomubanns hafa frá 4. maí miðast við 50 manns en höfðu þar áður, eða frá 24. mars, miðast við samkomur 20 einstaklinga eða fleiri. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tilkynnti á upplýsingafundi almannavarna nú síðdegis um næsta skref. Það gerir ráð fyrir, eins og áður segir, að fjöldatakmörk miðast við 200 einstaklinga 25. maí.

„Einnig að staðir munu gefa einstaklingum áfram kost á tveggja metra reglunni eins og kostur er,“ sagði Þórólfur.

Líkamsræktarstöðvar verða einnig opnaðar 25. maí og þar verður fjöldi gesta miðaður við helmingsfjölda gesta sem hver staður hefur leyfi fyrir. Þórólfur sagði að hugmyndin væri svo að hámarksfjöldi yrði hækkaður í einu viðbótarskrefi fyrir 15. júní. Þá munu barir einnig geta opnað 25. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×