Innlent

Tveir bætast í baráttuna um Bessastaði

Andri Eysteinsson skrifar
Mennirnir þurfa að safna tilskildum fjölda meðmælenda til þess að komast á kjörseðilinn í júní.
Mennirnir þurfa að safna tilskildum fjölda meðmælenda til þess að komast á kjörseðilinn í júní. Vísir/Vilhelm

Nú hafa tveir karlmenn bæst við hóp þeirra sem sækjast eftir kjöri til embættis Forseta Íslands í forsetakosningunum sem fram fara í júní, að því gefnu að fleiri nái tilskyldum fjölda meðmælenda en núverandi forseti, Guðni Th. Jóhannesson.

Mennirnir tveir eru þeir Kristján Örn Elíasson og Magnús Ingiberg Jónsson en Fréttablaðið greindi fyrst frá því að mennirnir hefðu sett nöfn sín á lista yfir forsetaframbjóðendur.

Nú eru því alls sex í framboði til Forseta, allt karlmenn. Þeir eru Arngrímur Friðrik Pálmason, Axel Pétur Axelsson, Guðmundur Franklín Jónsson, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Kristján Örn Elíasson og Magnús Ingiberg Jónsson.

Magnús Ingiberg hefur áður sóst eftir embættinu en honum misheppnaðist að afla sér nægum fjölda meðmælenda fyrir forsetakosningarnar 2016.

Magnús sagði kjörstjórn hafa brotið gegn sér og hafi hann fengið misvísandi upplýsingar og hafi það orðið til þess að hann hafi ekki náð að skila öllum gögnum inn á tilskyldum tíma.

Kristján Örn hefur ekki boðið sig fram áður en Fréttablaðið greinir frá því að Kristján hafi snúið niður öryggisvörð Landsbankans í Austurstræti haustið 2017. Í samtali við Fréttablaðið segir Kristján að stuttur tími sé til stefnu og segist hann ekki viss um velgengni.

Kristján segir þá mikla spillingu ríkja í þjóðfélaginu og sé hann ósáttur með stjórnsýsluna og framkvæmdavaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×