Enski boltinn

Kane styður hetjurnar í fremstu víglínu gegn faraldrinum og sitt gamla félag

Sindri Sverrisson skrifar
Harry Kane með nýju aðalliðstreyju Leyton Orient.
Harry Kane með nýju aðalliðstreyju Leyton Orient. TWITTER/@HKANE

Harry Kane, landsliðsfyrirliði Englands í fótbolta, er mikið gæðablóð ef mið er tekið af ákvörðun hans um að sýna heilbrigðisstarfsfólki stuðning og styrkja um leið sitt gamla félag Leyton Orient.

Kane, sem er 26 ára gamall og hefur raðað inn mörkum fyrir Tottenham síðustu ár, lék sinn fyrsta aðalliðsleik fyrir Leyton Orient árið 2011. Hann hefur nú keypt auglýsingu framan á búningum Orient fyrir næstu leiktíð.

Kane hefur svo ákveðið að á aðalbúningi Orient verði kveðja til heilbrigðisstarfsfólks og annarra sem staðið hafa í fremstu víglínu í baráttunni gegn kórónuveirunni. Á varabúningunum tveimur verða auglýsingar fyrir annars vegar barnaspítala og hins vegar góðgerðafélag sem vinnur að bættri andlegri heilsu.

Orient mun láta 10 prósent tekna af seldum treyjum renna til þessara góðgerðamála.

„Ég er fæddur og uppalinn nokkrum mílum frá heimavelli Orient og ég er mjög ánægður með að fá tækifæri til að gefa eitthvað til baka til félagsins sem gaf mér fyrsta tækifærið sem atvinnumaður. Þetta gefur mér líka færi á að þakka kærlega þeim hetjum sem staðið hafa í fremstu víglínu, og góðgerðafélögum sem hjálpa og styðja við fólk á þessum erfiðu tímum,“ sagði Kane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×