Fótbolti

Bandaríski heimsmeistarinn æfir enn á fullu komin níu mánuði á leið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Morgan á fullu við æfingarnar í myndbandinu á Instagram síðu hennar.
Alex Morgan á fullu við æfingarnar í myndbandinu á Instagram síðu hennar. Mynd/Instagram

Bandaríska knattspyrnukonan Alex Morgan hefur ekkert slakað á við æfingarnar nú þegar líður að fæðingu frumburðarins og bumbu æfingamyndbönd hennar hafa vakið talsverða athygli að undanförnu.

Alex Morgan er í hópi bestu knattspyrnukvenna heims og var í lykilhlutverki þegar bandaríska landsliðið tryggði sér heimsmeistaratitilinn í Frakklandi í fyrrasumar.

Morgan er mjög öflugur framherji og hefur verið í fremstu röð síðan að hún vann sér sæti í bandaríska landsliðinu þegar hún var tvítug eða fyrir áratug.

Morgan fékk silfurskóinn á HM 2019 sem næstmarkahæsti leikmaður mótsins á eftir liðfélaga sínum Megan Rapinoe en Alex Morgan var með 6 mörk og 3 stoðsendingar á heimsmeistaramótinu.

Alex Morgan og maður hennar Servando Carrasco tilkynntu það í október síðastliðnum að þau ættu von á dóttur í apríl.

Alex Morgan gaf það strax út að hún ætlaði sér að ná Ólympíuleikunum í Tókýó sem áttu að fara fram í sumar en hefur nú verið frestað um eitt ár vegna kórónuveirufaraldarins.

Alex Morgan hefur verið dugleg að gefa aðdáendum sínum innsýn í æfingar sínar og hún hefur ekkert slakað á þótt að bumban stækki með hverjum deginum.

Nú þegar Ólympíuleikunum hefur verið frestað og engir fótboltaleikir eru á dagskránni bjuggust samt flestir við að Alex Morgan myndi róa æfingarnar og fara að undirbúa sig fyrir það að fæða barnið.

Alex Morgan ætlar hins vegar að æfa alla níu mánuðina eins og sjá má á þessum myndum hér fyrir neðan.

Fyrir tveimur mánuðum þá var Alex Morgan enn út á knattspyrnuvellinum að gera æfingar með boltann en nú er æfir hún í sóttkví þar sem eiginmaðurinn hvetur hana áfram.

Alex Morgan hefur skorað 107 mörk í 169 leikjum fyrir bandaríska landsliðið og hún hefur tvisvar orðið bandarískur meistari auk þess að vinna þrennuna með Lyon tímabilið 2016-17.

Alex Morgan varð heimsmeistari með bandaríska landsliðinu 2015 og 2018 en hún varð líka Ólympíumeistari með liðinu í London 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×