Enski boltinn

Harry Redknapp dreymir um að kaupa fótboltafélag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp horfir nú til þess að eignast fótboltafélag í framtíðinni.
Harry Redknapp horfir nú til þess að eignast fótboltafélag í framtíðinni. EPA/LINDSEY PARNABY

Harry Redknapp hefur verið atvinnulaus síðan að hann var rekinn frá Birmingham City árið 2017. Þessi litríki knattspyrnustjóri virðist hafa gefist upp á því að bíða eftir tilboði og vill þess í stað taka stjórnina sjálfur.

Redknapp þekkir knattspyrnuheiminn vel eftir að hafa verið stjóri Bournemouth, West Ham United, Portsmouth, Southampton, Tottenham Hotspur, Queens Park Rangers og Birmingham City. Nú vill hann komast hinum meginn við borðið.

Hinn 73 ára gamli Harry Redknapp hefur nú sagt frá því opinberlega að hann sé að leita sér að fótboltafélagi. Ekki til að setjast í knattspyrnustjórastólinn þar heldur til að kaupa það.

Harry Redknapp sagði frá þessi í hlaðvarpsþætti Peter Crouch. Þeir félagar þekkjast vel enda báðir búnir að vera lengi í boltanum auk þess að þeir unnu saman hjá Portsmouth.

Redknapp segist vilja kaupa félag þegar kórónuveirufaraldurinn er yfirstaðinn. „Þegar við sleppum úr þessum lokunum þá vil ég kaupa fótboltafélag,“ sagði Redknapp og hélt áfram:

„Þar liggur minn metnaður. Þetta yrði alltaf neðrideildarklúbbur, lið í C-deildinni, D-deildinni eða jafnvel enn neðar. Yrði samt að vera félag með einhverja framtíðarmöguleika. Ég myndi elska að fá það tækifæri og fá að setja pressuna á stjórann á laugardögum,“ sagði Redknapp.

Redknapp grínaðist líka með það að Peter Crouch kæmi ekki til greina sem knattspyrnustjóri liðsins. „Ég held að ég hefði ekki efni á launum Crouchy,“ sagði Redknapp.

„Ég ætla ekki að eyða miklum peningi og við myndum þurfa að vinna með lítið fjármagn. Ég þarf því stjóra sem þekkir viðkomandi deild vel. Þess vegna kemur Crouchy ekki til greina,“ sagði Redknapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×