Körfuknattleiksmaðurinn Nikolas Tomsick mun spila á ný undir stjórn þjálfarans Baldurs Þórs Ragnarssonar á næstu leiktíð en hann hefur samið við Tindastól.
Tomsick varð deildarmeistari með Stjörnunni í vetur en lék tímabilið þar áður með Þór Þorlákshöfn, undir stjórn Baldurs. Nú hefur hann ákveðið að ganga í raðir þriðja félagsins hér á landi, Tindastóls, en þetta staðfestir Baldur við Feyki.is í dag.
„Tomsick spilaði mjög vel með Stjörnunni í vetur og hefur sýnt fram á það að hann er hágæða leikmaður, þannig að þetta er klárlega góð viðbót við liðið,“ sagði Baldur við Feyki.
Tomsick var stigahæstur deildarmeistara Stjörnunnar í vetur með 20,1 stig að meðaltali í leik og skoraði jafnframt oft þegar mest lá við. Þessi 29 ára gamli Króati átti auk þess 5,1 stoðsendingu og tók 3 fráköst að meðaltali í leik í vetur. Hann varð jafnframt bikarmeistari með Stjörnunni í vetur og var stigahæstur í úrslitaleiknum ásamt Ægi Þór Steinarssyni.