Erlent

Einn af lykil­mönnum þjóðar­morðsins í Rúanda hand­tekinn

Atli Ísleifsson skrifar
Felicien Kabuga er sakaður um að vera einn af þeim sem báru eina mesta ábyrgð vegna þjóðarmorðsins í Rúanda árið 1994 þar sem um 800 þúsund Tútsar voru drepnir.
Felicien Kabuga er sakaður um að vera einn af þeim sem báru eina mesta ábyrgð vegna þjóðarmorðsins í Rúanda árið 1994 þar sem um 800 þúsund Tútsar voru drepnir. EPA

Lögregla í Frakklandi hefur handtekið Félicien Kabuga, einn af lykilmönnum þjóðarmorðsins í Rúanda á tíunda áratugnum. Kabuga hefur verið leitað um margra ára skeið.

Kabuga er sakaður um að vera einn af þeim sem báru eina mesta ábyrgð á þjóðarmorðinu í Afríkuríkinu árið 1994 þar sem um 800 þúsund Tútsar voru drepnir.

Kabuga, sem nú er 84 ára gamall, hefur dvalið í bænum Asnieres-Sur-seine, nærri frönsku höfuðborginni París, þar sem hann hafði verið í felum og notast við falskt nafn. Naut hann aðstoðar barna sinna við að vera í felum.

Kabuga var með sterk tengsl við Juvénal Habyarimana, þáverandi forseta, og stofnaði útvarpsstöðina RTLM sem útvarpaði rasískum hatursáróðri sem beindist gegn Tútsum.

Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn vegna þjóðarmorðanna í Rúanda gaf út handtökuskipun á hendur Kabuga árið 1999.

Kabuga flúði land eftir að ljóst var að uppreisnarhópurinn RPF hafði sigur á Húta-stjórninni sem ábyrgð bar á þjóðarmorðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×