Erlent

Skilur að fólk sé pirrað á flóknum reglum

Sylvía Hall skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/Getty

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands segir skiljanlegt að fólk sé pirrað á nýjum reglum yfirvalda þar í landi, en ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir flókna reglusetningu í kórónuveirufaraldrinum. Nýjar reglur kveða meðal annars á um að fólk megi ekki bjóða ættingjum og vinum í heimsókn en fasteignasölum sé heimilt að bjóða væntanlegum kaupendum að skoða fasteignir.

Á vef Reuters kemur fram að skoðanakönnun dagblaðsins Observer sýndi vaxandi óánægju meðal almennings í landinu út í stjórnvöld og að um 42 prósent væru mótfallin aðgerðum yfirvalda. Johnson sagðist skilja það að sumir yrðu óánægðir með nýju reglurnar.

„Við erum að reyna að gera eitthvað sem hefur aldrei verið gert áður – að færa landið úr samfélagslegum höftum á þann hátt að það sé öruggt og fórni ekki erfiðisvinnu ykkar allra,“ skrifaði Johnson í grein í blaðinu Mail on Sunday.

„Ég skil að það sem við erum að biðja um núna er flóknara en að vera einfaldlega heima hjá sér, en þetta er flókið vandamál og við þurfum að treysta á skynsemi fólksins í Bretlandi.“

Breyttar reglur voru kynntar á miðvikudag og má fólk nú snúa til vinnu ef það getur ekki unnið heima hjá sér. Það er þó beðið um að forðast almenningssamgöngur ef það hefur tök á því. Reglurnar gilda þó ekki um fólk í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi þar sem tilslakanir hafa ekki verið kynntar.

Fólk í Bretlandi er beðið um að forðast almenningssamgöngur ef það hefur tök á.Vísir/Getty

Vill „næstum eðlilegt“ ástand í júlí

Aðgerðir yfirvalda í Bretlandi hafa líkt og annars staðar haft veruleg áhrif á hagkerfi landsins. Tölur í síðustu viku sýndu að það hefði dregist saman um 5,8 prósent og efnahagsumsvif gætu minnkað um 25 prósent frá apríl fram í júní. Væri það mesta minnkun í yfir þrjá áratugi.

Ráðherrann Michael Gove sagði ekki hægt að hafa hagkerfið, þjónustu og skóla lokaða mikið lengur því heilsufarsáhrif þess gætu einnig verið neikvæð. Ríkisstjórnin ynni að því að ráða átján þúsund manns í smitrakningareymi til þess að ná tökum á útbreiðslunni.

Götublaðið The Sun fullyrti að Johnson hefði lýst því yfir innan Íhaldsflokksins að hann vildi ná „næstum eðlilegu“ ástandi í júlí, en til þess þyrfti almenningur að fylgja fyrirmælum yfirvalda.

„Ef við fylgjum öll fyrirmælum, þá getum við hægt og rólega losað okkur við þetta flækjustig og þessar hömlur og gert það auðveldara fyrir fjölskyldur að hittast aftur,“ skrifaði Johnson í Mail on Sunday og bætti við að það þyrfti að gerast hægt og á réttum tíma.

Um 240 þúsund hafa greinst með kórónuveiruna í Bretlandi og tæplega 35 þúsund látist.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×