Uppfært klukkan 06:19, 19.05.:
Hlé var gert á leit Landhelgisgæslu, lögreglu og björgunarsveita á Vopnafirði að skipverja sem saknað hefur verið síðan í gær skömmu eftir miðnætti. Leitinni verður haldið áfram í dag, samkvæmt frétt RÚV.
Sveitir Landhelgisgæslu, lögreglu og björgunarsveitarinnar Vopna á Vopnafirði leita enn að skipverjanum sem talinn er hafa fallið fyrir borð af fiskiskipi á leið þess til hafnar fyrr í dag.
Á meðal þeirra sem sinnt hafa leit er hópur fimm kafara. Gert er ráð fyrir því að leit haldi áfram framundir miðnætti og byrji að nýju í fyrramálið hafi hún ekki skilað árangri. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Austurlandi.
Tilkynning barst upphaflega um klukkan tvö í dag. Björgunarsveitin Vopni kemur að leitinni með björgunarskipi, gengið er í fjörur auk þess sem að kafarar gæslunnar eru að störfum en þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á Vopnafirði um klukkan 19 í kvöld.