Hlutirnir breyttust hratt í gærkvöldi hjá landsliðsmanninum Birki Bjarnasyni sem var að reyna að komast heim til Íslands svo hann nái leiknum gegn Rúmeníu í lok mánaðarins.
KSÍ vildi fá bæði Birki og Emil Hallfreðsson til landsins í gær svo þeir gætu komið í tæka tíð fyrir leikinn. Klárað tveggja vikna sóttkví og svo spilað leikinn mikilvæga gegn Rúmeníu sem er í umspili um laust sæti á EM.
„Emil er á leiðinni til landsins og Birkir átti að fara sömu leið. Þeir búa ekki langt frá hvor öðrum á Ítalíu en þó nógu langt á milli svo það séu ekki alveg sömu reglur hjá þeim,“ segir Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari í viðtali hjá íþróttadeild í morgun.
„Birkir fékk ekki leyfi til þess að yfirgefa landið og við erum að takast á við það. Varðandi sóttkvína í þessa fjórtán daga þá er ekki meitlað í stein að hann þurfi að fara í sóttkví í 14 daga. Hins vegar munum við fara eftir þeim leiðbeiningum sem við fáum.
„Eins og við vitum er ferðamönnum leyft að koma inn í landið. Birkir gæti fallið undir þá skilgreiningu eins og andstæðingar okkar. Við munum eiga það samtal við stjórnvöld en það verður allt gert í góðu samráði við yfirvöld. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að Birkir geti spilað með okkur í þessum mikilvæga leik.“