Erlent

Merkel á­ætlar að milli 60 og 70 prósent muni smitast

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari mætti til ríkisstjórnarfundar í morgun þar sem viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum var ræddur.
Angela Merkel Þýskalandskanslari mætti til ríkisstjórnarfundar í morgun þar sem viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum var ræddur. Getty/Sean Gallup

Angela Merkel Þýskalandskanslari áætlar að milli sextíu og sjötíu prósent fólks í Þýskalandi muni smitast af kórónuveirunni.

Þetta kom fram í máli kanslarans á fréttamannafundi fyrir skemmstu. Heilbrigðisráðherra landsins, Jens Spahn, hvatti á sama fundi til þess að stærri viðburðum í landinu verði frestað til að draga úr úrbreiðslunni.

Alls hafa nú rúmlega 1.600 manns greinst með kórónuveirusmit í Þýskalandi. Á heimsvísu er talan um 120 þúsund og dauðsföllin um 4.300.

Kanslarinn sagði að enn sem komið er sé engin lækning til og að ríkisstjórnir þyrftu að einbeita sér að hægja á útbreiðslu hennar.

Hægt væri að búast við að milli 60 og 70 prósent myndu smitast þegar veiran væri komin á kreik, engin meðferð væri fyrir hendi og fólk hefði ekki byggt upp ónæmisviðbrögð gegn henni.

„Áherslan verður að vera sú að leggja ekki of miklar byrðar á heilbrigðiskerfið með því að hægja á útbreiðslu veirunnar. Þetta snýst um að vinna tíma,“ sagði Merkel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×