Erlent

„Ég sætti mig ekki við eina reglu fyrir þessa trúða og aðra fyrir okkur hin“

Sylvía Hall skrifar
Piers Morgan er verulega ósáttur við hegðun ráðgjafa forsætisráðherrans.
Piers Morgan er verulega ósáttur við hegðun ráðgjafa forsætisráðherrans. Vísir/Getty

Breski fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan er verulega ósáttur við fréttir af ferðalögum helsta ráðgjafa forsætisráðherra Bretlands á meðan útgöngubanni stóð. Ráðgjafinn, Dominic Cummings, er sakaður um að hafa brotið gegn sóttvarnalögum í lok mars þegar hann keyrði 400 kílómetra leið til foreldra sinna.

„Ef Boris rekur ekki Cummings í dag, þá mun ég lýsa því yfir að útgöngubanninu sé lokið og keyra til þess að hitta foreldra mína (í tveggja metra fjarlægð) í fyrsta skiptið í 12 vikur,“ skrifaði Piers á Twitter-síðu sína, greinilega ósáttur við stöðu mála.

„Ég sætti mig ekki við eina reglu fyrir þessa trúða og aðra fyrir okkur hin.“

Kallað hefur verið eftir afsögn Cummings en breskir fjölmiðlar sátu fyrir honum fyrir utan heimili hans í Lundúnum í dag. Aðspurður sagðist honum vera sama um hvernig þetta liti út, þetta væri spurning um að gera það rétta í stöðunni.

„Þetta snýst ekki um það sem ykkur [fjölmiðlum] finnst.“

Downingstræti 10 sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem sagði að Cummings hefði haft fullan rétt á því að leita pössunar fyrir fjögurra ára gamlan son sinn hjá foreldrum sínum, þar sem hann hafði haft grun um að bæði hann sjálfur og eiginkona sín væru smituð af kórónuveirunni.

„Fjölskylda hans hafði boðið fram aðstoð sína svo hann hélt sig nærri henni meðan þau sinntu honum.“


Tengdar fréttir

Kalla eftir afsögn ráðgjafa Johnson eftir brot á sóttvarnareglum

Kallað hefur verið eftir afsögn Dominic Cummings, helsta ráðgjafa forsætisráðherra Bretlands, eftir að Cummings ferðaðist frá Lundúnum til Durham eftir að hafa verið gert að einangra sjálfan sig eftir að hafa fundið fyrir einkennum kórónuveirusmits.

Skilur að fólk sé pirrað á flóknum reglum

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands segir skiljanlegt að fólk sé pirrað á nýjum reglum yfirvalda þar í landi, en ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir flókna reglusetningu í kórónuveirufaraldrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×