Hin ellefu ára Þórdís Katla ætlar að afhenda umboðsmanni barna bréf á morgun þar sem hún óskar eftir aðstoð vegna myglueinkenna í Fossvogsskóla. Hún segist stundum óttast að mæta í skólann vegna þrálátra höfuðverkja og fer fram á að umboðsmaður ræði við borgaryfirvöld.
Þórdís Katla er nemandi í sjötta bekk í Fossvogsskóla og finnur fyrir einkennum myglu í skólanum. Hún fær þráláta höfuðverki sem valda því að hún getur stundum ekki farið á æfingar eftir skóla vegna verkja.
Afhverju ætlar þú að senda umboðsmanni barna bréf?
„Af því að það er mygla í skólanum mínum og starfsmönnum og krökkum líður illa út af því,“ sagði Þórdís Katla.
Í bréfinu kemur fram að stundum vilji hún ekki fara í skólann af hræðslu við að fá höfuðverk.
Hvernig líður þér þegar þú ert í skólanum á daginn?
„Ekki það vel því ef ég fæ höfuðverki þá get ég ekki unnið nægilega vel og það þýðir að ég verð eftir á í áætlun,“ sagði Þórdís.
Áður en einkenni myglu komu upp leið Þórdísi almennt vel í skólanum og var einbeitingin góð.
Foreldrafélagið vill frekari mælingar
Sýnataka sem gerð var í fyrra leiddi í ljós raka- og loftgæðavandamál í húsnæðinu og var ráðist í endurbætur. Skólanum var lokað í mars á síðasta ári og skólahald fært í höfuðstöðvar KSÍ. Skólinn var opnaður aftur í haust en samkvæmt formanni foreldrafélagsins fóru nemendur að finna fyrir einkennum á ný í nóvember. Hann gagnrýnir aðgerðaleysi borgarinnar og fer fram á að samtal fari fram auk frekari mælinga á húsnæðinu.
Hvað vilt þú að umboðsmaður barna geri?
„Í raun og veru bara tala við Reykjavíkurborg eða eitthvað og láta laga skólann og reyna að gera eins mikið og þeir geta,“ sagði Þórdís.
Henni þykir yfirvöld ekki taka nægilega vel á málum.
„Illa af því að við fórum í KSÍ og eitthvað þannig og það var reynt að laga það en það virkaði ekki og þá finnst mér að það ætti að gera eins mikið og hægt er á meðan við erum í sumarfríi,“ sagði Þórdís.
Þórdís segir ekki eðlilegt að líða illa í skólanum.
„Alls ekki mér finnst eins og maður ætti að vera í góðu skapi og hafa gaman í skólanum,“ sagði Þórdís.
Bréfið ætlar Þórdís Katla að senda umboðsmanni barna í fyrramálið.