Fótbolti

Berglind Björg: Hræðilegt að vera á Ítalíu undanfarnar vikur

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir
Berglind Björg Þorvaldsdóttir Vísir/Skjáskot

Íslenska knattspyrnukonan Berglind Björg Þorvaldsdóttir kláraði tveggja vikna sóttkví hér á landi í dag eftir að hafa verið innilokuð á Ítalíu þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði þar í landi.

Berglind Björg var tiltölulega nýgengin til liðs við ítalska stórliðið AC Milan þegar útgöngubann skall á, á Ítalíu, en hún hafði spilað 5 leiki í ítölsku úrvalsdeildinni þegar allt íþróttastarf var stöðvað vegna útbreiðslu faraldursins.

Í kjölfarið tók við strangt útgöngubann þar sem Berglind gat ekki komið til Íslands í tæka tíð áður en Ítalíu var lokað. Hún ræddi síðustu viku við Svövu Kristínu Grétarsdóttur í dag þar sem hún var meðal annars spurð út í muninn á reglum á Ítalíu og hér á landi.

„Það er eiginlega ekki hægt að bera þetta saman. Ég var alveg innilokuð í tíu vikur og mátti bara fara út til að kaupa nauðsynjavörur eða fara í apótek. Það er ljúft að vera hérna heima,“ segir Berglind Björg sem segir dvölina á Ítalíu hafa verið erfiða.

„Þetta var alveg hræðilegt í rauninni. Ég fór í gegnum allan tilfinningaskalann. Þetta varð alltaf erfiðara og erfiðara en þegar maður fékk þær fréttir að maður mætti fara heim fór maður að sjá til sólar.“

Viðtal Svövu við Berglindi má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan en þar ræðir Berglind meðal annars komandi knattspyrnusumar þar sem hún mun leika með Breiðablik í Pepsi-Max deildinni.

Klippa: Berglind Björg laus úr sóttkví



Fleiri fréttir

Sjá meira


×