Fótbolti

Fyrirliði Sevilla biðst afsökunar á að hafa boðið stjörnum liðsins í sundlaugapartý í samkomubanni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ever Banega.
Ever Banega. Vísir/Getty

Argentíski knattspyrnumaðurinn Ever Banega hefur beðist opinberlega afsökunar á því að hafa haldið sundlaugapartý fyrir liðsfélaga sína í spænska úrvalsdeildarliðinu Sevilla um helgina en samkomubann, miðað við 10 manns, er í gildi á Spáni vegna kórónuveirufaraldursins.

Luuk De Jong, Lucas Ocampos og Franco Vazquez þáðu heimboð Banega, sem er fyrirliði félagsins, og eiginkona Banega birti myndir af hópnum í góðum gír á Instagram reikningi sínum.

„Ég vil biðjast afsökunar á því sem gerðist í gær. Þetta var fjölskyldusamkoma með liðsfélögunum og við vissum ekki að við værum að gera eitthvað rangt,“ segir Banega í færslu á Instagram í dag.

„Ég bið félagið, stuðningsmenn og samfélagið í heild afsökunar. Þetta kemur ekki fyrir aftur.“

Kórónuveiran hefur leikið spænsku þjóðina grátt en knattspyrnumenn þar í landi, eins og víða annars staðar, hafa reglulega komist í fréttirnar fyrir að fylgja ekki fyrirmælum yfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×