Sérfræðingar Seinni bylgjunnar voru ekki sammála um hvort það hafi verið rétt ákvörðun að gefa Stjörnumanninum Ragnari Snæ Njálssyni rauða spjaldið í leiknum gegn Fram í Olís-deild karla í fyrradag. Fram vann leikinn, 23-22, og á fyrir vikið enn möguleika á að komast í úrslitakeppnina.
Þegar níu mínútur voru eftir, í stöðunni 20-20, féll Ragnar ofan á Valdimar Sigurðsson, línumann Fram og Anton Gylfi Pálsson sýndi honum rauða spjaldið. Logi Geirsson var sammála þeirri ákvörðun.
„Mér finnst þetta vera rautt. Hann dettur bara viljandi ofan á hann,“ sagði Logi.
Jóhann Gunnar Einarsson og Ágúst Jóhannsson voru ekki á sama máli og Logi.
„Hann er fintaður upp úr skónum og er ekki í neinu jafnvægi. Hann reynir að redda sér og endar ofan á honum. Þetta er í mesta lagi tvær mínútur og málið er látið,“ sagði Ágúst.
„Ég held að Anton hafi dæmt eftir viðbrögðum Valdimars því hann meiddi sig rosalega mikið og orðsporið hans Ragga hafi aðeins spilað inn í,“ sagði Jóhann Gunnar.
Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan